Breiðavík
Breiðavík
Í Breiðavíkurveri var feiknamikil útgerð. Þar eru miklar leifar af verbúðum, fiskgörðum, uppsátrum, naustum, lendingarmerkjum, spilum, saltfiskverkunarhúsi, vörum, fiskreitum og skothúsi fyrir tófur. Mannvirki þessi eru flest hlaðin úr grjóti. Sums staðar standa veggir enn í upprunalegri hæð, allt að 2 m. Þarna hafa verið skráðar a.m.k. 24 minjar. Yngsta verbúðin er frá miðri 20. öld en heimildir eru um útgerð allavega frá 1703 og líklega mun lengur. Breiðavíkurver var friðlýst 1971.