Reykjanesviti
Fyrsti viti landsins stóð á Valahnúk á Reykjanesi, reistur 1878. Núverandi viti, sem stendur á Bæjarfelli, var byggður í hans stað veturinn 1907–1908. Upphaflega var ætlunin að danska vitamálastofnunin reisti vitann og gerð hafði verið á hennar vegum tillaga að 70 feta háum járngrindarvita. Svo fór að hin nýstofnaða heimastjórn tók málið í sínar hendur og lét byggja vitann sem er 26,7 m hár, sívalur kónískur turn, úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Var þetta fyrsta stórverkefnið sem ráðist var í á ábyrgð hennar. Hönnuðir voru Thorvald Krabbe verkfræðingur, síðar vitamálastjóri, og Frederik Kiørboe arkitekt.
Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 mm snúningslinsu. Þetta var snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.
Allt frá upphafi vitareksturs á Reykjanesi árið 1878 fram til 1999 var vitavörður búsettur á Reykjanesi. Íbúðarhúsið sem nú stendur er byggt árið 1947, hannað af Ágústi Pálssyni arkitekt. Vitinn er nú friðaður.