Greinar

Síldarminjasafn Íslands – öflugur útvegur eða aflóga verstöð?

(Grein birt í Morgunblaðinu 7. febrúar 2007)

Norður á Siglufirði hefur risið á undanförnum árum eitt stærsta safn landsins og er sennilega það þriðja í röðinni næst á eftir Listasafni Reykjavíkur og Þjóðminjasafninu ef mælt er í stærð sýningarýmis.

Síldarminjasafnið stendur vörð um þann merka kafla í þjóðarsögunni sem síldin markar og kallaður hefur verið síldarárin eða síldarævintýrið. Hálf þjóðin var í síldinni eins og sagt var - og síldin var einn helsti örlagavaldur Íslendinga á 20. öld og án hennar er talið vafasamt að hér hefði byggst það nútímasamfélag sem við þekkjum í dag – eins og sagt er í Íslenskum söguatlas (3. bindi bls. 40).

Starfssvið safnsins er skilgreint og viðurkennt á landsvísu þar sem viðleitnin er að segja heildarsöguna.

Í þremur stórum sýningarhúsum eru helstu þáttum þessarar miklu sögu gerð skil.

Uppbygging safnsins var í höndum Félags áhugamanna um minjasafn og naut einstaks og óvenjulegs stuðnings menntamálaráðuneytisins á síðustu árum auk góðra styrkja frá Siglufjarðarkaupstað, ýmsum fyrirtækjum, félögum og einstaklingum.


Sjóminjar Íslands

Fyrir nær aldarfjórðungi var ýtt úr vör áformum um eitt allsherjar sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði. Það mikla safn skyldi spanna alla fiskveiði- og siglingasögu landsmanna og þar var síldarþátturinn náttúrlega engin undantekning. Vísir að þessari miklu stofnun varð til með Sjóminjasafninu í Hafnarfirði sem rekið var með myndarbrag um skeið í Bryde-pakkhúsi en ekkert varð úr stórframkvæmdunum og að lokum var safninu lokað fyrir nokkrum árum. Leiða má líkur að því að fyrirsjánalegur mikill uppbyggingarkostnaður hafi m.a. leitt til þess að háleit áform sigldu í strand. Svo er það önnur og flóknari saga hvernig öll 20. öldin var öld hinna glötuðu tækifæra til varðveislu mikilvægra sjóminja.

Í umræðu meðal safnmanna á síðustu árum hefur allmikið verið fjallað um stöðu sjóminjavörslunnar í landinu og þá hugmynd að skilgreina mætti sjóminjasöfnin, sjóminjasýningar, vita og varir, sem sjóminjar Íslands; með öðrum orðum að fjölbreytileg starfsemi sjóminjasafna víða um land í samvinnu við Þjóðminjasafnið og Fornleifastonun ríkisins gæti komið í stað fyrri áforma. Og líta má svo á að öðrum þræði sé Samband íslenskra sjóminjasafna, sem stofnað var nú á haustdögum, ákveðin staðfesting þess.


Einir á báti

Þau söfn sem skilgreina má sem sjóminjasöfn hafa orðið til í mikilvægum hafnarbæjum fyrir atorku heimamanna og án nokkurs sérstaks “skipulags að ofan”. Og flest þjást þau af fjárskorti við rekstur. Á myndarlegum söfnum á Akranesi, Ísafirði, Húsavík eða Eskifirði er starfsemin vægast sagt undirmönnuð. Þar róa menn einir eða tveir á báti. Og þar eru það fyrst og fremst sveitarfélögin sem greiða meginhluta rekstrarkostnaðar.

ÁSíldarminjasafni Íslands, þessu stóra safni, er einn fastráðinn starfsmaður, en auk sumarstarfsfólks við safngæslu og gestamóttöku hafa undanfarin ár tveir menn í hlutastarfi unnið við bátaviðgerðir með styrk frá Atvinnuleysistryggingasjóði og nú síðast frá Menntamálaráðuneytinu.

Klifað er hér á stærð þessa safns og starfssviði þess. Árangur starfseminnar má e.t.v. að nokkru meta í ánægju safngesta og í margs konar verðlaunum og viðurkenningum sem Síldarminjasafninu hefur hlotnast. Af verðlaunum ber hæst Evrópsku safnverðlaunin 2004, Micheletti verðlaunin á sviði iðnaðar og tækni. Síldarminjasafnið þá valið besta, nýja iðnaðarsafn Evrópu.

Þá virðist hróður safnsins hafa borist langt út fyrir landsteinana sé miðað við fjölmörg boð frá erlendum ráðstefnum um kynningu á safninu og ævintýralegri síldarsögu Íslendinga.

Ennfremur má nefna að auki hinu hefbundna safnstarfi hefur Síldarminjasafnið virkað sem miðstöð menningarlífs á staðnum þar sem margs konar samkomur, tónleikar og listsýningar eru haldnar.

Í ljósi þessa alls sem upp er talið hlýtur það að teljast undarlegt að viðurkenna að einn fastráðinn starfsmaður gerir varla meira en að halda í horfinu og sinna því allra brýnasta frá degi til dags (svo ekki reki á reiðanum!).

Og númætti varpa fram þeirri stóru spurningu hver gæti verið rekstrarleg staða Síldarminjasafns Íslands væri það staðsett á Stór-Reykjavíkursvæðinu?

Svari hver fyrir sig!



Sótt á ný mið

Ef við ímyndum okkur að “Sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði” hefði orðið að veruleika þá sjáum við fyrir okkur mikið fyrirtæki í mörgum sýningarhúsum og fjölda starfsmanna búin góð vinnuaðstaða við margvíslegustu viðfangsefni s.s. söfnun, varðveislu, sýningar og rannsóknir.

Eðli slíkra stofnana er að þróa öflugt innra starf sem birtist almenningi í síbreytilegum glæsilegum sýningum og útgáfu margs konar fræðsluefnis. Og þannig er það í stóru söfnunum í Reykjavík, starfsemi þeirra er til mikils sóma í samræmi við öflugan stuðning ríkis og borgar. Stöðugildi í Listasafni Reykjavíkur eru 23.5, í Þjóðminjasafnsninu nálægt 40 og Listasafni Íslands 18.5. Að auki styrkir ríkið önnur minni listasöfn í borginni ríkulega.

Til samanburðar má telja samtals 7.5 stöðugildi sem snúa beint að sjóminjum á þeim 9 söfnum sem standa að Sambandi íslenskra sjóminjasafna.

Hvað er hægt að segja um þennan samanburð? Er það eitthvert lögmál að nauðsynleg og góð verk verði ekki unnin nema “fyrir sunnan”? Eða skyldi saga sjósóknar Íslendinga t.d. vera eitthvað ómerkilegri en saga íslenskrar myndlistar?

Fullyrða má að þrátt fyrir góða viðleitni í uppbyggingu einstakra sjóminjasafna hafi þessi tegund minjavörslu orðið hornreka í öllu almennu skipulagi safnamála. Þar hefur heimasaumuðum seglum verið hagað eftir vindi hverju sinni en stefnan til glæsisiglingar ekki tekin af hinu opinbera. Þar ættu Alþingi, hagsmunasamtök sjávarútvegsins ásamt Þjóðminjasafninu að hafa frumkvæðið og horfa til nýrrar stöðu mála. Það hefur að vísu ekki skort skilninginn á stundum. Bæði ráðamenn og hinn venjulegi hversdagsmaður hafa t.d syrgt þau gömlu og sögulegu skip okkar sem nú eru horfin og jafnframt að sambærilegur stórhugur skyldi ekki hafa verið sýndur þessari grein og frændur okkar í nálægum löndum hafa gert.

Fyrir hönd Sambands íslenskra sjóminjasafna vill undirritaður hvetja alla til að endurskoða stöðu sjóminjavörslunnar í því skyni að auka veg hennar eins og samboðið er hinni miklu fiskveiði- og siglingaþjóð.

Og fyrir hönd Síldarminjasafnsins vil ég lýsa því yfir að á Siglufirði er starfsvettvangurinn tilbúinn fyrir þróttmikil fræði- og skipulagsstörf í þágu mennningararfsins.

Örlygur Kristfinnsson

Höfundur er safnstjóri Síldarminjasafnsins og formaður Sambands íslenskra sjóminjasafna.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica