Yfirlýsing frá Sambandi íslenskra sjóminjasafna um frumvarp til endurskoðunar laga um söfn og menningarminjar
Yfirlýsingin send til menntamálaráðuneytisins í október 2008.
Við lestur á frumvarpi til laga um menningarminjar sem nú er til kynningar meðal safnmanna vekur það athygli að í 4. grein um byggingaarf er hvergi minnst á báta eða skip.
Nokkuð hefur verið um það rætt á síðustu árum hvernig best verði staðið að vernd mikilvægra og sögulegra skipa. Íslensk þjóð hefur átt allt sitt undir siglingum og sjósókn frá upphafi vega en mikið hefur skort á að þessum þætti sögunnar væri sómi sýndur í líkingu við það sem gert er í flestum nálægum löndum.
Frumvarp um “bátafriðunarsjóð” í samræmi við Húsafriðunarsjóð var lagt fram á Alþingi fyrir nokkrum árum en dagaði uppi.
Í umræðum hefur það verið álit safnmanna og annarra áhugamanna um þessi mál að með stofnun “mannvirkjafriðunarsjóðs” væri hægt að vinna skipulega að vernd og viðhaldi báta og leggja það að jöfnu við vernd mikilvægra húsa. Því kemur það á óvart og veldur vonbrigðum að báta eða skipa sé ekki getið sérstaklega í flokkun mannvirkja í 4. grein. Sjá mætti fyrir sér d-lið þeirrar greinar til nánari skilgreiningar.
Ef það vefst fyrir þeim sem semja frumvarpið hvenær bátur hættir að vera venjulegur og viðráðanlegur safngripur eins og margir árabátar eru, þá mætti e.t.v. setja stærðarmörk báta/skipa til að skilgreina hvenær um “mannvirki” gæti verið að ræða.
Við undirritaðir forstöðumenn safna sem aðild eiga að Sambandi íslenskra sjóminjasafna (SÍS) skora á nefnd um endurskoðun safna- og fornminjalaga að endurskoða frumvarpið þannig að skýrt verði kveðið á um vernd skipa.
Ásgeir M. Hjálmarsson, Byggðasafninu Garðskaga.
Jón Allansson, Byggðasafnið að Görðum, Akranesi.
Jón Sigurpálsson, Byggðasafni Vestfjarða.
Lýður Pálsson, Sjóminjasafninu á Eyrarbakka
Pétur Kristjánsson,Tækniminjasafni Austurlands.
Pétur Sörensson, Sjóminjasafni Austurlands.
Sigrún Magnúsdóttir, Víkinni–Sjóminjasafninu í Reykjavík.
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir, Minjasafn Egils Ólafssonar Hnjóti.
Sigurjón B. Hafsteinsson, Safnahúsinu Húsavík.
Örlygur Kristfinnsson, Síldarminjasafni Íslands.
Ágúst Ó. Georgsson, fulltrúi Þjóðminjasafnsins í stjórn SÍS.